þriðjudagur, 19. febrúar 2013

89. Sterk bein til að þola góða daga

Hér erum við systkinin stödd á ættarmóti árið 1996. Við stöndum í aldursröð og erum fædd á árunum 1952 til 1973. Einn bróðir lést árið 2000. 
Mér telst svo til að samtals höfum við lifað um það bil 413 ár, og á þeirri "ævi" aðeins brotið einu sinni bein svo ég viti! Það var þegar Yngvi bróðir stakkst af hestbaki þegar hann var krakki og handleggsbrotnaði.
Uppfært 18.03.12.: Jói var að segja mér að hann hefði einu sinni brotið bein í hendi. Þá var hann í vinnunni en ekki að gera neitt af neðantöldu.
Þetta er samt áreiðanlega alls ekki vegna þess að ekkert reyni á, því að þetta lið hefur löngum verið upp um allt og út um allt, ýmist labbandi, hlaupandi, hjólandi, skíðandi, klifrandi, róandi, syndandi, stökkvandi (í fallhlíf) eða dansandi. Þetta síðasttalda er reyndar það sem ég nenni helst þó að ég hafi svo sem prófað allt hitt í mislitlum mæli nema fallhlífina. Ónafngreindir fulltrúar þessa hóps hafa til að mynda þverað landið á skíðum, hjólað á Öræfajökul, hlaupið víða um lönd svo dægrum skiptir, klifið Hraundranga, farið á kajak með ströndum landsins, klifrað upp og ofan ísaðar klappir með tilheyrandi búnaði og svo framvegis.
Ég dreg þá ályktun að hér vinni saman góð beinagen, hreyfing og mjólk. Á okkar bernskuheimili fóru nokkrir tíu lítra mjólkurkassar á viku á meðan kaffi sást ekki nema ef komu gestir.
Þetta beinalán virðist hins vegar ekki hafa skilað sér eins vel til afkomenda minna þar sem eldri helmingur þeirra hefur eitthvað brotið af sínum beinum.
Best að reikna saman hvað afkomendur mínir 8 eru gamlir samtals......
147,5 ára! 

4 ummæli:

 1. Yndisleg mynd! Mér telst svo til að ég kannist við góðan part þessa hóps, ég kynntist Óla og Yngva í skátunum, Fríðu og þér í gegnum bloggið, og svo er Jói (er það ekki rétt nafn) jafngamall mér, fæddur 1964, og mér finnst endilega að hann hafi verið í Lundarskóla eins og ég. Getur það passað, er kannski líklegra að hann hafi alla tíð verið í Brekkuskóla (eða Barnaskóla Akureyrar eins og skólinn hét hér áður fyrr).

  Annars segi ég bara "Góðan bata" og farðu vel með þig.

  SvaraEyða
 2. Ójú,hann var eitthvað í Lundarskóla.
  Takk, ég má líklega til.

  SvaraEyða
 3. Hahahaha, leiðist þér Ella mín?

  SvaraEyða
 4. Jú reyndar, en þú sérð kannski fyrir þér að ég hafi talið saman á tám og fingrum? Það var ekki alveg þannig, ég notað exel.

  SvaraEyða