mánudagur, 14. janúar 2013

85. Finna

Hún Finna vinkona mín dó að morgni nýársdags. Hún fæddist í febrúar 1913 og dó í janúar 2013 og var jörðuð síðastliðin laugardag.
Ég skrifaði minningargrein:
Guðfinna S. Karlsdóttir
Það er afar misjafnt hversu langan tíma fólk fær hér á jörðunni. Þeir sem lengstan tíma fá hafa sitthvað séð og forréttindi eru að fá að kynnast slíku fólki og eignast það að vinum. Hún Finna var komin á tíræðisaldur þegar hún féllst á að kannski væri rétt að þiggja heimilishjálp. Það var nú samt held ég aðallega gert til að friða fjölskylduna. Ég var svo heppin að fá þetta verkefni. Hún var orðin heimakær og það gat varla heitið að ég hefði séð hana fyrr, en aðeins heyrt hennar getið eins og gengur í sveitinni. Mér skildist að þetta væri órög dugnaðarmanneskja sem ætti það til að láta ýmislegt flakka svona ef þannig stæði á spori. Ég var ofurlítið hikandi þegar ég gerði fyrst vart við mig á Knútsstöðum en fljótlega kom í ljós að þarna hitti ég vinkonu. Við áttum afar margt sameiginlegt og kom ákaflega vel saman. Hún lagði mun meiri áherslu á samveru og samvinnu en að sitja og stjórna öðrum og það var fróðlegt og skemmtilegt að vera með henni í verki hvort heldur það var við kleinugerð sem við stunduðum reglulega, saumaskap þegar við hvolfdum spariflík og endursaumuðum, viðgerð ljósakrónu, eða bara hvað sem okkur datt í hug að gera þyrfti. Við höfðum sama viðhorf til nýtingar og sóunar og miðluðum hvor annarri hugmyndum. Nú er ég til dæmis búin að útvega mér glerskál úr þvottavélarloki. Þegar ég sagði henni að ég væri að gera kerti úr vaxafgöngum lét hún mig hafa dálítin klump sem ég fór með heim og steypti úr kerti handa henni. Ég tók það svo með mér til hennar næst en þá tók hún á móti mér með þeim orðum að nú væri hún að drepast. Rósamál var jú ekki hennar stíll. Hún hafði samt ekkert við það að athuga að ég hringdi eftir aðstoð þó að hún hafi einhvern veginn ekki haft sig í það sjálf, var ekki dugleg að snúa fólki í kring um sig. Þennan dag urðum við samferða í sjúkrabíl til Húsavíkur og eftir það átti ég ekki erindi í heimilishjálp á Knútsstöðum. Ekki setið saman með prjóna yfir leiðarljósi eða í lönguvitleysu við eldhúsborðið. Árin hennar úti á sjúkrahúsi var ég ekkert nærri nógu dugleg að líta til hennar en alltaf var það gaman, mest gaman líklega þegar ég fór til hennar klædd peysufötum á þjóðhátíðardegi. Þær voru þá tvær saman á stofu og var helst eins og ég hefði fært þeim dýrindisgjöf.
Hún lá ekkert á því að þetta væri að verða komið gott enda væri hún orðin til lítils gagns. Síðast þegar ég kom til hennar hjálpuðumst við nú samt að við að leysa myndarlega garnflækju. Ég var farin að hallast að því að ég fengi að faðma hana á hundrað ára afmælinu en það verður víst ekki af því.
Elín Kjartansdóttir.
Skrifað og sent 9. Jan. 2013

Svo gerði ég skreytingar. Hún hafði ákveðið að hafa íslenska fánann á kistunni svo að ekki var þörf fyrir kistuskreytingu en undir lok athafnar er fáninn tekinn af og settur moldarkrans. Ég tók hann að mér. Ég fór og tók allt efnið í hrauninu hennar Finnu, það kom alls ekki annað til greina. Sem betur fór hafði hlánað smávegis ofan af efstu klöppum og hólum svo að mér tókst að finna gott efni.
Moldarkransinn er mosaþúfa sem er krydduð lítillega. Hún virkaði vel. Undir henni er rakur strigi sem var rennt yfir á kistuna.

Gerði líka körfu. Held bara að þetta sé einhver besta karfan sem ég hef gert. Maður veit eiginlega aldrei hvernig þetta verður, maður byrjar bara með þá körfu og það efni sem maður hefur fundið og svo er að sjá hvað verður úr því.
Ég var með smá afgang af greinum sem ég var búin að hreinsa og snyrta og ekki kom til greina að henda neinu svo ég fór með þær í ofnskúffu í félagsheimilið fyrir jarðarförina og kvenfélagskonurnar settu þær á hlaðborðið. Þegar ég vitjaði skúffunnar eftir kaffið voru nokkrar litlar þar eftir og þær fóru í þennan vasa sem ég er með á stofuveggnum og er vanur að fá nýjar greinar þegar ég er í svona stússi í sambandi við jarðarfarir eða gamla spýtujólatréð. Ég bara nennti ekki að grafa upp sortulyng á það fyrir þessi jólin.

3 ummæli: