fimmtudagur, 27. október 2011

17. Þeir eru ýmsir þröskuldarnir

Í breytingabröltinu á ganginum niðri varð mér litið á þröskuldana og fékk hroll við tilhugsunina um að fara að klína á þá enn einu málningarlaginu sem fljótlega væri svo sparkað sundur þar sem alltaf má búast við að stigið sé á þröskulda. Ég prófaði að bregða pússivélinni minni á einn þeirra og viti menn; birtist ekki þar þessi fína fína spýta. Ég skoðaði málið betur og sá að einhvern tíma, þegar gólfið var einangrað og hækkað svolítið, hafði verið lagður nýr þröskuldur sem náði þar af leiðandi ekki inn undir dyrastafina. Ég sótti kúbein og náði upp 3 þröskuldum og bar þá út.
Svo skóf ég og pússaði af þeim mörg lög af málningu og lakki og varð harla ánægð með árangurinn.
Næst setti ég þá á pappakassa í geymslunni og lakkaði með grimmsterku gólflakki. Þess má geta að myndin er tekin af nýlökkuðu, þeir glansa ekki svona núna. Við Ingimundur festum þá á sína staði með límkítti í fyrradag og nú geri ég mér góðar vonir um að þurfa aldrei að skipta mér af þeim meir.
Þröskuldurinn í dyrum vinnustofunnar er ekki upphækkaður eins og hinir svo að hann er ekki hægt að fjarlægja.
Ég bar á hann stripper
og skóf og krafsaði
og pússaði þar til ekkert var eftir af málningu en leyfði gömlum djúpum skrámum að halda sér og lakkaði svo að lokum. Mér finnst hann verulega fínn og ansa ekki "tískunni" sem setur hvíta málningu á allt mögulegt og ómögulegt. Það getur stundum verið gaman að horfa á slíkt hjá öðrum en mig langar ekki vitund til að hafa mitt umhverfi þannig. Lítið væri nú gaman að vera til ef allir hefðu sama smekk.

4 ummæli:

 1. Vá, hvað þetta er fínt. Sammála með þessa hvítalakksþörf á allt og allt, en ég hef á tilfinningunni að sú tíska sé að renna út og bráðum verður kannski umferð um bloggið þitt af fólki sem leitar ráða varðandi það að losna við málningu af hlutum:)
  Vegna vesens fyrir fólk að kommentera, er ég nú að prófa að vera anonymus. Kveðja, Kristín í París

  SvaraEyða
 2. Stafar þessi tilraun þín af því að þú hafir ekki getað kvittað eða ertu bara að sýna samkennd?
  Nú prófa ég Name/URL eins og ég gerði alltaf áður en ég fór að blogga sjálf.

  SvaraEyða
 3. Málning er ágæt, en ekki á þröskulda. Þetta var sniðugt.

  SvaraEyða