Ef ekki kemur blogg í hverjum mánuði hið minnsta skal ég hundur heita.
Hér áður var markmiðið að blogga daglega að meðaltali og það gerði ég lengi á gamla blogginu sem ég held að nú sé endanlega dáið og óínáanlegt. Mér finnst það sorglegt og missir fyrir menningarsamfélagið að svo mörg hugverk skuli barasta sisvona þurrkast út, ekki að það hafi verið mikill missir að ýmsu sem á blogcentral var, en sumt var þó alveg þess virði að varðveitast. Kannski er líka stundum missir í að ekki skuli komast hér inn allar bloggfærslurnar sem myndast flesta daga í huga mér en þar er ekki við neinn að sakast nema sjálfa mig og það er ekki gott. Alltaf þægilegra að geta kennt öðrum um.
Uppfært: ég prófaði af rælni að fara inn á gamla bloggið og það gekk! Þannig var það ekki síðast sko.
Uppfært: ég prófaði af rælni að fara inn á gamla bloggið og það gekk! Þannig var það ekki síðast sko.
Hér var jólaboð. Þegar hópurinn er stór er alltaf erfitt að hitta á tíma sem öllum hentar en ég lét þá ráða mestu hvenær yngsta fólkið gæti verið með og það varð fimmtudagurinn 27. Markhópurinn er eiginlega fólkið sem kom alltaf saman hjá mömmu á jóladag en systkinini mín og þeirra afkomendur eru komin út um hvippinn og hvappinn og þeir sem hittast hjá mér um jólin eru oftar að meirihluta afkomendur okkar Agnars. Eins gott að við fórum ekki að reyna að hafa þetta núna um helgina eins og veðrið er búið að láta.
Hér erum við nöfnurnar.
Ég lagði á tvö borð í stofunni og þar sitjum við 17 saman og borðum heimareykt hangikjöt að gömlum sveitasið.
Jóhann Smári og Elín Rut þurfa bæði að átta sig á því að það er ekki alveg víst að þau séu alltaf miðpunktur alheimsins.....
Ég er ekki frá því að henni gangi það ívið betur eins og er, hvað sem verður síðar meir. Það er alveg snilld að sjá þessa líkamstjáningu unga mannsins þar sem hann segir svo greinilega að HANN eigi áreiðanlega bæði þennan pabba og ömmuróluna og bara svona umhverfið yfirleitt takk fyrir. Verst að henni virðist bara vera nokk sama!
Þetta eru náttúrulega bara snillingar eins og öll ömmubörn eru alltaf.
Þessi vetur ætlar áreiðanlega ekki að fara framhjá án þess að eftir verði tekið. Nú um daginn rigndi um stund og snjórinn sjatnaði aðeins en það sést ekki núna. Norðanhríðin lemur gluggana og svona leit þetta út þegar Agnar var að brasa við að komast að heiman áðan, þarna sést aðeins í efsta hluta veltigrindarinnar og púströrsins á dráttarvélinni eins og verið hefur lengst af í vetur, gerðið og stór hluti girðinga á kafi og undir öllu saman eru endalaus svell. Ákveðið áðan að aflýsa áramótamessunni annað kvöld sem er synd þar sem það er árlegt tækifæri mitt til að syngja þjóðsönginn raddað á fullu blasti. Svo að það sé alveg á hreinu er ég eindreginn fylgismaður þjóðsöngsins og tek ekki í mál að skipta.
Gleðilegt nýtt ár elskurnar mínar og ég set jólabréfið inn á morgun en stefni á að setja inn færslu á gamladagabloggið í dag.