miðvikudagur, 28. september 2011

10. Skúmaskot

Í þessu skoti er mikið skúm. Það lítur helst út eins og skotið hafi verið skoti gegn um skúmið.
Þetta er svo flott að það liggur við að ég hafi samviskubit yfir því að hafa miskunnarlaust sett á það ryksuguna þegar ég var búin að skrúfa skóhilluna af veggnum til að geta málað. Ég er ekki sú tegund af húsmóður sem svífst einskis oft á ári til að þrífa hvert skúmaskot. Heppnar köngulærnar hér. Og það bitnar þá væntanlega á flugunum eða hvað? Dauði eins er annars brauð. Ef ég á að velja vil ég líklega frekar nokkrar köngulær en flugur. Ég hef aldrei pirrast yfir köngulóarskít upp um alla veggi. Og þær nota ekki andlitið á mér sem flugvöll þegar ég á að vera sofandi á hlýjum sumarnóttum.

4 ummæli:

  1. Þetta er nú bara listaverk!
    Ég pirra mig ekki á kóngulóm. Tek samt vefina niður svona fyrir siða sakir en mér er alls ekki illa við þær. Og ég vil gjarna hafa þær utandyra því mér finnast vefirnir fallegir og þær éta þá eitthvað af flugum

    SvaraEyða
  2. Iss, minn maður rotar geitunga og elur köngulærnar á þeim... oft við mikinn fögnuð lítilla gesta sem geta þá fengið að sjá hvernig köngulær vefja matinn sinn... eins og fahitas.

    Ég kann ekki enn að velja einhvern prófíl, svo ég skrifa undir eins og var gert í gamla daga.

    Svafa.

    SvaraEyða
  3. Það var lagið, kenna ungviðinu að skoða og njóta náttúrunnar, það er göfugt.

    SvaraEyða
  4. Eðr, ég segi nú bara oj

    SvaraEyða