Ég á þrjá syni. Í undanförnum bloggum hef ég verið að tala um tvo, hér kemur sá þriðji. Maður á ekki að skilja útundan sko.
Ég brá mér til tannlæknis á Akureyri á miðvikudaginn og kom til baka með kerru sem hann Dúi frændi minn var svo elskulegur að lána mér. Ég var afar glöð á leiðinni þó að mér hundleiðist að draga dót á eftir bílum; á kerrunni voru nefnilega gluggarnir þrír sem eru grundvöllur að því að hér sé hægt að dveljast að vetri til í framtíðinni!
Hér er svo hann Kjartan verðandi byggingafræðingur búinn að taka svefnherbergisgluggann úr. Jú og það gerði ég auðvitað líka. Honum til aðstoðar á myndinni er hann Jóhann Smári með smiðsbelti um mittið og allt.
Veðrið var afar gott og hentugt og skemmtilegt að geta hallað sér út um gluggann. Það hefur aldrei verið hægt áður og verður vonandi ekki aftur á meðan ég bý hér.
Nú lítur sjónvarpsstofan svokölluð (ætti líklega frekar að heita dagstofa því að hér er tölvan líka) svona út. Mér finnst afar freistandi að vera ekkert að ganga hérna frá fyrr en ég hef druslast til að mála hér en ég byrjaði eiginlega á því þegar ég tók gamla ofninn um árið. Gallinn er bara að ég er fræðilega séð enn að mála niðri og auk þess fer ég að selja slátur í þessari viku. Spurning um klónun? Nennessekki.
Mér finnst ekki hentugt að vera með mjög löng myndablogg svo að ég brytja þau frekar niður. Framhald á eftir.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli