Fyrir ævalöngu fluttum við heim í nokkrum ferðum hraunhellur sem ég hugsaði mér að nota til að girða garðinn, að minnsta kosti að hluta. Síðan hef ég gengið um og miklað verkið fyrir mér. Til dæmis var ekki fært að gera þetta fyrr en búið væri að gera við húsið, menn gætu viljað fara inn í garðinn á tækjum. Hér um árið þegar strákarnir endurnýjuðu þakið var þarna til dæmis vörubíll.
Það er í framtíðarplönunum að klæða húsið en í sumar áttaði ég mig á því að hellurnar góðu voru á góðri leið með að sliga vegginn sem þær voru reistar upp við svo að nú var að hrökkva eða stökkva.
Fyrst var að fá yfirsýn yfir efnið og velja úr þá steina sem vænlegastir væru til að byrja á. Við röðuðum þeim nokkurn veginn eins og við héldum að þeir myndu fara best. Ég get trúað ykkur fyrir því að þetta er ekki léttavara.
Svo var grafinn skurður, djúpur og hæfilega breiður. Mokað ofan í hann dálítilli hraunmöl. Ég naut við það aðstoðar svo sem sjá má hér. Ungi maðurinn sem næst okkur stendur prílaði gætilega upp á binginn, valdi sér þar mola, fikraði sig svo jafn gætilega niður aftur, rölti fram með skurðinum og dúndraði þar steininum ofan í. Þetta endurtók hann alloft, eða þangað til við töldum þetta hæfilegt.
Og svo stungum við í hann (skurðinn, ekki barnið) slatta af gömlum rakstararvélatindum og öðru járni. Það á að þjóna sem járnabinding. Næst kom slumpur af grófri steypu.
Og í hana markaði ég rauf sem var svona sirka fyrir þykktina á flestum hellunum.
Framhald í næstu færslu....
Engin ummæli:
Skrifa ummæli