Næst var þá að fara að koma steinunum fyrir. Ég hafði alla tíð ímyndað mér að það yrði skelfilegt bras, þyrfti að stífa af og skorða með tilfæringum á meðan steypan harðnaði í kring og svona, en viti menn: Við reistum upp fyrsta steininn til að máta og hann bara stóð þarna eins og hann hefði aldrei gert annað! Við góndum til skiptis á steininn og hvort annað en jæja, skemmtileg tilviljun bara.
Við reistum þann næsta til að vera nú viss um púslið áður við settum steypuna að fyrsta steininum og hann stóð þarna líka bísperrtur!! Ég prófaði að blása fast á þá og ekkert skeði. (Var það ekki Matti minnstur sem blés á vörubílinn með sprengiefninu í Pabbi mamma börn og bíll?) Svona bara virkaði fínt raufin sem ég markaði í grunnsteypuna af rælni.
Við vorum með aðstoðarmenn og svona til að þeir væru til friðs sagði Ingimundur þeim að tína saman áhöldin og setja á plötu sem þarna lá. Þetta var útkoman.
Við héldum svo áfram með hvern steininn af öðrum fram í svarta myrkur og ég er óskaplega hamingjusöm með girðinguna mína. Þetta er fyrsti áfangi og nú veit ég að þetta er vel gerlegt.
Það er eftir að steypa betur í kring og ganga frá en ekki er vert að lengja mannvirkið fyrr en búið er að slétta garðinn endanlega. Það var víst aldrei búið að því, hann bara greri óvart áður en tími gafst til að klára.
Hér standa fimm stórir og einn minni og eins og ég segi er þetta langt framar vonum. Stefnan var að rifur og bil á milli yrðu ekki stærri en svo að lömbin kæmust ekki í gegn og það gekk eftir enn sem komið er.
Við vorum bæði þreytt og dösuð eftir törnina enda steinar og steypa í þennan girðingarpart hátt á annað tonn og sumt fært til hvað eftir annað. Þið megið giska á hvort okkar bar þyngri byrðar.
Velkomin á nýjan stað, hér er fagurt um að líta!
SvaraEyðaTakk, þetta finnst mér einmitt líka.
SvaraEyðaFíntfínt
SvaraEyðaFallegt blogg! :)
SvaraEyðaTakk aftur.
SvaraEyða