laugardagur, 23. mars 2013

95. Hálsfesti eða

Fann þennan kjól hjá Rauða krossinum á Akureyri í fyrra. Hann er afskaplega þægilegur, má fara með hann eins og manni sýnist þar sem hann krumpast ekki, hann fer vel og síðast en ekki síst; hann grennir. Að minnsta kosti hefur það komið fyrir oftar en einu sinni að fólk horfir á mig með áhyggjusvip þegar ég er í honum, og spyr hvort ég sé að leggja af? Persónulega finnst mér það ekki mikið áhyggjuefni og reyndar er ég að leggja af, en ég er aldrei spurð um það í hinum fötunum mínum.
Þegar ég fór í hann fyrir þorrablótið okkar í febrúar fann ég ekki hálsfesti sem ég var ánægð með þar sem hálsmálið er aðeins hærra en passar fyrir festarnar sem ég gerði HÉR en ég vildi eitthvað rautt. Nú jæja. Þegar mér var svo boðið á síðbúna blótið fór ég að hugsa.
Svo sótti ég þetta:
Eða réttara sagt ég bað einhvern að setja "útsaumaða" baukinn minn á borðstofuborðið, ég gat sjálf farið þangað með litla verkfærabaukinn og rauðu kúlukeðjuna sem hafði verið að flækjast inni í herberginu mínu.
Í stóra bauknum geymi ég þennan öfluga poka sem ég keypti einu sinni á útsölu í handverksbúð í Árósum eða þar í grennd. Í honum eru 222 hankir í jafnmörgum litum.
Ég byrjaði á að klippa slaufuböndin burt og sauma saman hálsmálið að framan. Kúlukeðjan er steypt á þráðinn svo að ekki þýðir að losa hana sundur og raða svo hér og þar. Ég saumaði hana því fasta þétt upp við hálslíningu frá öðrum axlasaumnum yfir að hinum, hún var ekki nógu löng til að ná allan hringinn. Svo saumaði ég með svörtu hér og þar í blúnduna þar sem hún var að hugsa um að losna eða trosna. Þá var komið að útsaumnum. Ég ákvað að fylgja í stórum dráttum grófustu útlínunum hér og þar og byrjaði á laufblaðinu hér hægra megin fyrir neðan. Það varð ekki nógu gott. Útsaumsgarnið er ekki snúðhart þannig að það varð ansi lufsulegt þegar búið var að draga það gegn um þétt efnið margsinnis. Þá hleypti ég í mig kjarki, fékk Ingimund til að fylgja mér og fór út í Tumsu (aðalvinnustofuna mína úti í gamla fjósi) í fyrsta (og eina) sinn síðan ég slasaðist. Þar tók hann niður úr hillu kassann minn með allskonar bandinu. Þar minnti mig að ég ætti hnotu af eldrauðu DMC garni og það reyndist rétt. Þegar ég var búin að sauma með því hinumegin við klaufina var það augljóslega miklu betra svo að ég rakti upp fyrsta laufið. Nú var ég eins og venjulega búin að vera miklu lengur að þessu en ég bjóst við og saumaði bara svolítið meira áður en ég fór í hann. Á óskýru myndinni í færslu 92 má sjá stöðuna.
Síðan hefur þetta bara beðið á borðinu fram undir þetta en nú er ég búin að sauma það sem ég held að sé mátulegt og fann svo auk þess nokkrar rauðar kúlur sem ég gróðursetti líka.
Nú þarf enga rauða hálsfesti
 en það er alveg hrikalega erfitt að mynda þetta þannig að litirnir séu nokkurn veginn réttir, ég er örugglega búin að henda 20-30 myndum og hér er nærmynd í snarvitlausum lit.
Og mikið sem ég hugsaði til hennar Hörpu á meðan ég var að þessu. Já og Guðnýjar þegar ég var að brasa með myndavélina.

3 ummæli:

  1. Flott! Gjörbreytir kjólnum.
    Ég kannast alveg við þetta með litina, ég er með photoshop og get lagað liti þar.

    SvaraEyða
  2. Ég er orðin svo léleg að fylgjast með bloggum að ég þurfti að lesa langt aftur í tímann! Vona að fóturinn grói vel og til hamingju með upplyftinguna á kjólnum, ekkert smá fínt.

    SvaraEyða