þriðjudagur, 9. apríl 2013

96. Fatlafólin í fermingu

Á skírdag var afastrákur og nafni Agnars fermdur á Húsavík.
Þarna má glöggt sjá að afinn hefur orðið af með eina töluna á jakkanum sínum en það frétti ég ekki fyrr en síðar. Langsennilegast er að litla nafna mín hafi sparkað henni af þegar hann var að burðast með hana í fanginu.
Þegar ég var að velta fyrir mér hvernig ég ætti að pakka inn myndavélinni handa piltinum datt mér í hug að fara að leita að myndum sem teknar hafa verið af honum þegar hann hefur verið að hjálpa til í sveitinni og svo prentaði ég nokkrar slíkar út og pakkaði inn í þær. Þarna blasir hann til dæmis við með litlar hjólbörur fyrir talsvert mörgum árum.
Jóhann situr þarna við hlið föður síns en heldur sýnast mér bragðdaufar veitingarnar fyrir framan hann. Vonandi rættist úr því.
Elín Rut er þarna búin að ná annarri slaufunni af höfðinu.
Hér erum við fatlafólin komin heim í sveitina með stuðningsfulltrúana okkar.
Jóhann kominn á flug í myndlistinnni.

Annars er það helst að frétta af gangi mála, að eftir páska fékk ég að vita að tilvísunin mín í Orkuhúsið hefði komið fram og verið forgangsmerkt og ég mæti þar í viðtal við Gauta Laxdal 30. apríl. Þá verða rétt tæpir 3 mánuðir frá slysi. Þá kemur væntanlega í ljós hvað hægt er að gera í stöðunni og ég vona heitt og innilega að það verði eitthvað, og það fyrr en seinna. Enn er ég alveg bundin tveim hækjum og skána bæði hægt og seint. Ég er ekkert farin að geta af viti og til dæmis er bæði óþægilegt og stundum verulega vont að labba og sitja. Þá er fátt annað í stöðunni en að liggja eða sitja upp við dogg í rúminu með marga kodda undir fætinum og með  fartölvuna á maganum. Það gefur auga leið að takmarkað er hægt að vinna við þær aðstæður. Myndirnar eru í borðtölvunni þannig að ef ég ætla að blogga set ég þær inn þar og klára svo drögin í bælinu. Bókhaldið er líka í borðtölvunni en ég bara verð að fara að drusla því frá. Og þó miklu fyrr hefði verið. Eitt er þó það svið sem ég hef getað sinnt og það er prófarkalestur. Sjá http://profork.rafbokavefur.is
Þar hef ég bara staðið mig alveg þokkalega held ég og er búin að prófarkalesa um það bil 1600 síður sem er allmiklu meira en nokkur hinna ef frá er talinn forsprakkinn. Það hitti svo vel á að ég sá umfjöllun um þetta verkefni í Kastljósinu um það leyti sem mér var kippt út úr daglega lífinu og ég fór strax að skoða málið. Þetta er sjálfboðavinna sem snýst um að setja inn á vefinn til ókeypis almennra nota, bækur sem komnar eru úr höfundarrétti. Þetta getur bara verið nokkuð gaman, þessar gömlu bækur eru margar hverjar á alveg bráðskemmtilegri íslensku og gömlu stafsetningunni eigum við ekkert að breyta. Staðreyndavillum ekki heldur og ég átti til dæmis bágt með mig þegar sagt var í sögu eftir Einar gamla Ben: ...sagði ferðamaðurinn og skrúfaði stútinn af ferðapelanum...! Það getur verið alveg geysimikið sem þarf að laga samt og í einni bókinni taldist mér til að það væru á bilinu 75 til 100 villur á hverri síðu. Skönnunin á oft í basli með íslensku stafina og þegar síðan er auk þess bæði gömul og snjáð fer sitthvað úrskeiðis.
Í eldri færslu sé ég að ég hef skrifað að tími frá vinnu verði ekki undir 2 mánuðum! Fyndið Þvuhh.

4 ummæli:

 1. Kannski var þetta ferðapeli með lausum stút?

  SvaraEyða
 2. Nja og tja, ýmsa gripi pela með ýmsu lagi hefur maður nú séð á söfnum og víðar en aldrei neitt í þá áttina. Samhengið var líka þannig að hann fékk sér sopann eftir nefndan gerning.

  SvaraEyða
 3. Jóhann Smári át aðallega borðskreytingar í þessari fermingarveislu. Einstaklega heppilegt að þær skyldu vera úr súkkulaði.

  SvaraEyða
 4. Gaman að sjá myndir af ykkur :)

  Elsa: Hahaha! :)

  SvaraEyða