þriðjudagur, 19. mars 2013

94. Fótafræði fjölskyldunnar.

22. júlí 2012 var sonarsonur minn á trampolíni á Akureyri og lenti einhvern veginn illa (ekki á hnéð samt) og þá flísaðist úr lærlegg og skemmdist brjósk í hnénu. Tvær aðgerðir og mikil þjálfun.

31. desember 2012 renndi bróðurdóttir mín sér á sleða í Kópavogi, lenti á snjóruðningi og ökklabrotnaði. (Náði samt heim í tæka tíð fyrir skaupið sagði hún) Gifs.

3. febrúar 2013 steig ég eitt skref hérna úti í garði, skall á hnéð og sleit krossband og liðband innanfótar tognaði illa. Helv.... vesen, þjálfun og vonandi aðgerð einhvern tíma.

17. mars 2013 var sonur minn í körfubolta á Egilsstöðum og þá slitnaði hásin. Gifs og bráðum aðgerð.

Mamma á 40 afkomendur þannig að við erum komin með 10 % á stuttum tíma.
Ætli þetta sé ekki bara að verða komið gott?
Áhættuhegðun? Tja, ég held varla.

Þegar ég grandskoða þetta sé ég þó einn ljósan punkt: Allt sem ég gúggla og skoða á netinu og heyri í kring um mig segir mér að af þessu sé lakast að slíta krossband og ég er þó að minnsta kosti fegin að það var ekki lagt á þetta unga fólk mitt. Þó að maður ráði svo sem litlu í þessari úthlutun og hitt sé allt nógu slæmt.

4 ummæli:

 1. Það er miklu meira vit í því að hlaupa upp um fjöll og firnindi og úti í móa og á sköflum og svellbunkum, og dansa á háum hælum. Helst svona 10 km. á dag.

  SvaraEyða
  Svör
  1. Ok. ég er þá farin út að dansa 10 kílómetra eftir svellbunkum á háum hælum.

   Eyða
 2. Þið kunnið ekki fótum ykkar forráð

  SvaraEyða
  Svör
  1. Þetta eru vissulega vísbendingar í þá átt.

   Eyða