laugardagur, 9. mars 2013

93. Meiri upplyfting.

Í fyrradag sat ég við tölvu og síma og var að grufla í slysabótamöguleikum. Það verk er út af fyrir sig fag.
Þá hringdi grunnskólastjóri minnar sveitar og spurði hvort ég væri ferðafær. Ég hikaði við og sagði svo að það færi nú mest eftir markmiðinu hverju sinni. Hún var þá að leita að dómara í upplestrarkeppni skólans. Það leist mér vel á og sagði henni að það væri tvímælalaust miklu skemmtilegra en slysabótaleit, en ég kæmist hvorki lönd né strönd þar sem eiginmaðurinn væri staddur langt í burtu við vinnu. Hún sagðist þá bjarga því og ég fór óðara að brölta við að skola af mér. Það þarfnast talsverðrar umhugsunar og gætni; fyrst að setja stólkoll upp í baðkerið þar sem ekki gengur að standa þar undir sturtunni með hækjur og þvo sér um leið. Ekki er heldur nógu öruggt að standa allan tímann á öðrum fæti þar sem jafnvægi er ekki eins tryggt ef maður lokar augunum og ég hef tilhneygingu til þess ef sápa er á leiðinni þangað. Þetta tekst allt saman ef maður tekur sér bara nógan tíma og það gildir um allt hitt sem ég kemst ekki hjá að gera.
Það var gaman að hitta fólkið í skólanum, flesta krakkana kannast ég vel við síðan þau voru í leikskólanum en miðað við stærðina á þeim hlýtur að vera afar langt síðan. 11 krakkar lásu og við vorum þrjár í dómnefnd og það var ekkert svo einfalt að raða því þau voru öll flott.
Að loknu verki fengu þrjú börn verðlaun, öll börnin viðurkenningarskjal og dómararnir svolítinn glaðning:
 Vanillukerti.
Ég fer ekkert að segja frá því á almannafæri að ég er ekki spennt fyrir ilmkertum því að það skiptir engu máli, þetta var allt saman indælt. 
Hér heima er annars helst að frétta að í gærkvöldi kom lambateljarinn. Hann sónarskoðar ærnar og getur sagt til með nánast fullri vissu hversu mörg fóstur þær bera. Ég fékk mig flutta á bíl alveg að hlöðudyrum og gat gengið þar inn með stuðningsfulltrúana mína (hækjurnar) og beint fram eftir garðanum þar sem beið mín stóll. Þannig tókst mér að sinna skrifarastörfum. Það kemur ekki til greina að ég fari venjulegu leiðina yfir skaflinn í gerðinu og príli svo upp í garðann.

2 ummæli: