sunnudagur, 17. febrúar 2013

88. Svo liggur hver sem hann hefur um sig búið

Um þessar mundir eyði ég langmestum tíma mínum í rúminu með háttsettan fót. Til þess að útbúa viðunandi aðstæður þarf ég að lágmarki 8 kodda. Svona lítur rúmið út þegar ég hef náð að brölta fram úr á morgnana. 
Hérna er ég svo búin að koma öllu í lag til að skríða upp í aftur; 4 koddar undir vinstri fót, einn til að hagræða hægra fæti, - það er jú ljótt að skilja útundan - að minnsta kosti þrír koddar að baki ef ég ætla vera eitthvað með gömlu þungu fartölvuna hans pabba og þarna sést líka kexpakki í glugganum en það er víst skynsamlegt að éta eitthvað með öllum þessum pillum sem ég hef verið að innbyrða.
Ég er alveg háð öðrum með vatnið á náttborðinu á meðan ég róta mér ekki um nema á tveimur hækjum. Ég er eitthvað á róli á daginn svona þegar ég verð hvort eð er að fara framúr til að brölta á klósettið sem staðsett er á neðri hæðinni. Það gengur alveg, tekur bara tíma. Ég get líka látið fara þokkalega um mig við sjónvarpið með fótinn uppi en það geri ég ekki að neinu gagni við borðtölvuna. Þar er ég því ekki mjög lengi í senn en fattaði í gær að til að geta bloggað í rólegheitum væri sniðugt að setja inn myndirnar í aðaltölvunni og dunda svo við textann við tækifæri í rúminu og nú er ég sem sagt að því.
Í kvöld eru liðnar tvær vikur síðan ég datt og ég hef farið þrisvar út úr húsinu; tvær ferðir á heilsugæsluna á Húsavík og í gær að syngja við jarðarför og í erfidrykkju á eftir. Það gekk allt vonum framar en ansi var ég orðin rauð í vinstri lófa þegar ég kom heim af því að hanga á hækjunni. Á morgun á ég svo tíma í segulómun á Akureyri og eftir það verður kannski hægt að fara að spá um framhaldið. Við þykjumst vita að liðband sé að minnsta kosti tognað, hugsanlega slitið og liðpúði skemmdur með einhverjum hætti.

Mér gefst nægur tími til að hugsa og eitt af því sem ég hef gert mér glögga grein fyrir, er hvað þarf margar smáar en mikilvægar hreyfingar til að koma sér þægilega fyrir í rúmi. Það gildir þar eins og annars staðar að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Ég hef  fundið sárt til þess undanfarið að hafa ekki getað sofið í minni aðal stellingu en hún mun kölluð fósturstelling. Hún er langskárst þegar ég er vond í baki. Ég segi að ég sé nú orðin eins og skilyrt rotta sem búið er að kenna með rafstraumi hvaða hegðun er röng. Það gengur furðanlega að venja mann af ósjálfráðum hreyfingum með logandi sársauka. Ég finn hinsvegar ekkert til í fætinum ef ég hef frið í "réttum" stellingum. Í morgun þegar ég rumskaði varð mér fyrst fyrir eins og venjulega að reyna að hnika mér eitthvað til, eftir að hafa verið á bakinu nokkra klukkutíma. Það gengur þannig fyrir sig að ég mjaka mér ofurgætilega til vinstri og um leið þarf að snúa fætinum varlega ofurlítið með handafli. Svo eftir að hafa hallað efri partinum til hægri er að reyna að snúa mjaðmasvæðinu líka - með handafli að hluta -, en það verður að gerast án þess að hnjáliðurinn taki eftir því og þar strandar málið venjulega. Ef Agnar er á sínum stað og vakandi hef ég fengið að toga í hann og svo er að skella einhverjum púðanum við bakið til að ekki rúlli allt til baka. Í morgun komst ég hins vegar alveg upp á eigin spýtur alla leið á hliðina!! Og gat líka dregið að mér vitlausa fótinn og sett þykkan kodda á milli hnjánna (því þeim kemur afleitlega saman hnjánum á mér við þessar aðstæður). Og þarna lá ég svo himinglöð og fann barasta ekkert til! Helst langaði mig til að hrópa húrra en það hefði tæplega fallið í kramið því að það voru þrjár sofandi manneskjur í húsinu. 

3 ummæli:

  1. Æ Ella mín ekki gott að vera svona nær ósjálfbjarga, en eitt vil ég benda þér á sem ég hef góða reynslu af, það er snúningslak, algerlega nauðsynlegt þegar maður á erfitt með að snúa sér í rúminu. Þetta er ca. meters hólkur úr efni sem hefur hála áferð, sem snúið inn, og þessi hólkur hreyfist með manni og auðveldar allar snúningshreyfingar í bælinu.
    Bestu batakveðjur, Kristjana

    SvaraEyða
  2. Já, ég hef séð þessháttar og aðeins hugsað um það undanfarið, líklega væri eitthvað skárra að hafa slíkt en best fyndist mér ef hægt væri að skrúfa fótinn af og geyma á nóttunni. Ég held samt að sæki mér fóður þegar ég fer næst niður og geri tilraunir.
    Bestu kveðjur til baka.

    SvaraEyða