Alla daga gerist eitthvað sem er blogghæft, í dag til dæmis var haldin stuttmyndahátíðin Ræman á Laugum í Reykjadal en þar er eitt af fáum bíóum á landsbyggðinni.. Við brugðum okkur í bíó ömmustelpan, mamma hennar og ég og horfðum á 7 stuttmyndir, þar á meðal var Engin Traffík. Ég var að vísu búin að fara í bíó á Kópaskeri í vor og sjá myndina í íþróttahúsinu þar og fékk þá líka myndina á diski en það er auðvitað allt önnur upplifun að sjá sig á alvöru bíótjaldi.
Hér eru þær búnar að koma sér fyrir
og bíða spenntar. Með snuð og bleika uppáhalds hreindýrstusku. Fljótlega þvarr þolinmæðin þó og þær mæðgur brugðu sér í gönguferð en við höfðum stungið gamla silverkrossinum í skottið á bílnum. Þær komu svo og horfðu af og til og barnið var að sjálfsögðu til hreinnar fyrirmyndar. Hún var ekki yngsti gesturinn því þarna var líka tveggja mánaða kríli og elstu áhorfendur voru á níræðisaldri.
Á eftir brugðum við okkur svo í sund. Sumir virðast nokkuð brúnaþungir með nýju sundhettuna sína þegar þeir synda á eftir bleika krossfiskinum.
Hér kemur daman úr kafi.
Og svo er bara að þurrka sér vel á eftir og lætur maður sig ekki muna um að lesa eins og eina bók í leiðinni. Með krosslagða fætur beint upp í loftið.
Indælt að fá sopa á meðan maður bregður sér svo í fötin.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli