Ég er ekki að sjóða lappir vegna olíunnar fyrst og fremst heldur er hún svona hliðarafurð sem ég hef ekkert alltaf hirt. Því miður, segi ég núna eftir að ég fór á sápugerðarnámskeiðið. Aðallega er ég að hreinsa bein.
Hér hef ég losnað við mesta gumsið.
Búið að sjóða talsvert meira, skafa og skrúbba og orðið þokkalega hreint. Þá þarf að velta fyrir sér hvað á að verða úr þessu og bora og saga þau bein sem þú veist fyrir víst hvað á að gera við. Þannig losnar miklu fyrr um merg og fitu. Svo þarf að halda áfram að sjóða.
Næsta mál er að blása úr leggjum og kjúkum. Það er þokkalegasta lungnaþjálfun. Sjóða svolítið meira og blása aftur til að vera viss.
Þá er öllu raðað til þerris. Eftir nokkra daga ætti að vera ljóst hvort koma fram fitublettir einhvers staðar. Þau bein þarf að sjóða meira því að ekki viljum við að talan/skaftið/leggurinn fari að gulna og þrána með aldrinum. Samt þarf að gæta þess að sjóða ekki of mikið því að sum bein gætu þá sprungið eða morknað. Nei, lífið er ekki alltaf einfalt sko.
Þarna er svo komið að því að pússa, saga og bora meira eftir atvikum, líma og svo framvegis en ég er ekkert að fara nánar út í það núna.
Nokkrar tölur komnar á spjöld.
Nokkur beinasköft + þrjú hreindýrshorn.
Athugið að það er þýðingarlaust að ætla að fara að panta eftir þessum myndum því að ég á ekki eitt einasta tilbúið skaft núna enda neðstu myndirnar nokkurra ára gamlar. Þetta er bara framhaldsblogg um kindalappir :)
Eitthvað er víst til af tölum úti í Kaðlín.
Þú ert nú meiri þolinmæðislistakonan! Æðislegt handverk hjá þér!
SvaraEyða