sunnudagur, 31. desember 2017

Jólaboð 2017

Já, ég er lifandi svei mér þá. Nú er eftir að vita hvort ég man hvernig fólk býr til bloggfærslur.Það var sú tíð að ég bloggaði daglega en ég geri síður ráð fyrir að taka upp þann sið núna. Við sjáum til hvað verður. Í apríl á þessu ári lét ég undan allsterkum félagslegum þrýstingi og stofnaði fésbókarsíðu en það gerir alls ekki sama gagn. Þar er fínt að halda utan um samskiptin í handverkshópum, leikfélaginu, kórnum og þessháttar og síðast en ekki síst að hressa upp á tengingar við fólkið úr fortíðinni. Hinsvegar ekki nærri eins gott til að geyma myndir og minningar.
 Í gær var haldið jólaboð í Norðurhlíð. Lagt var á borð í stofunni fyrir tuttugu og fjóra og sá tuttugasti og fimmti kom eftir vinnu og settist við leifarnar. Á efstu myndinni eru Fríða systir og Óli bróðir og Agnar eiginmaður + önnur, þriðja og fjórða kynslóð frá okkur.
 Við þetta borð eru stjúpsonur minn með konu sinni, dóttur, systursyni og hans dóttur.
 Þetta er svo afgangurinn: Mamma, tveir synir mínir, tvær tengdadætur, þrjú barnabörn mín og ein systurdóttir. Sá tuttugasti og fimmti var svo elsti ömmustrákurinn minn.

 Ef þú vilt gera Jóhann Smára kátan skaltu spila við hann.
 Svo kom að eftirréttinum, hinn ómissandi heimatilbúni ís með ávöxtum og rjóma að ógleymdu piparkökuhúsinu sem Fríða kom með.
 Fjögurra ára skottur, Sigrún og Hildur telja sig sennilega vera að spila Master mind.
 Næstum því sex ára nafna mín nagar piparkökuþakskífu af innlifun með ísinn í hinni hendinni.
 Svo var spilað hið klassíska púkk í lokin. Velgengnin skín úr andliti Jóhanns þarna.
Mikið vildi ég óska að ég hefði álpast til að taka upp myndavélina þegar Ada Sóley tók lagið hástöfum með hárbursta fyrir hljóðnema.

2 ummæli: