Neibb, ég er ekki dáin. Bloggið mitt ekki heldur. Ég tek enn bloggmyndir og forma færslur í huganum en svo myndast einhver stífla. Ég ætla nú að rjúfa gat í hana og setja inn færsluna sem ekki má vanta frá fyrra ári:
Minnstu stúlkunni minni var gefið nafn. Þess var að sjálfsögðu getið í jólabréfinu en auðvitað á að vera sjálfstæð færsla um svo mikilvægt mál.
Við vorum frá upphafi ákveðin í að nafnið hennar yrði að vera í skírnarkjól fjölskyldunnar en til þess að það gæti orðið varð barnið auðvitað að klæðast kjólnum einhvern tíma. Þess vegna ákváðum við að hafa nafnveislu :).
Snemma að morgni 14. desember stakk ég þessum haug í bílinn en í kössunum er ýmiskonar borðbúnaður og marengsterta. Einnig fóru þangað bestu föt okkar hjóna. Við fórum svo að jarðarför hérna í okkar sveit sem fór fram klukkan ellefu og því var ég fegin því ég vildi ákaflega gjarnan vera þar og syngja í kirkjukórnum. Við urðum hinsvegar að sleppa erfidrykkjunni (kjötsúpunni) og brunuðum beinustu leið til Akureyrar eftir athöfnina.
Þar var margt öndvegisfólk og hér eru bráðfallegar (hálf)systkinadætur.
Til að komast að því hvað barnið héti þurfti að púsla. Margar hendur vinna létt verk. Að vísu hefðu ef til vill færri hendur farið færri villigötur en allt saman hafðist þetta þó og
þegar hér var komið sést að stúlkan heitir Ada Sóley.
Hér erum við að reyna að vera settlegar.
Sigrún Heiða kom að austan í fína blómakjólnum sem mamma saumaði og gaf henni í skírnargjöf. Hér sitja þær langmæðgur og ræða málin.
Systkin eru að ferðbúast en taka sér stund til að horfast í augu sem grámyglur tvær - eru að minnsta kosti gráklædd.
Þar sem hópurinn minn var nú allur þarna samankominn smalaði ég þeim til myndatöku. Uppstillingin er eiginlega eins og fjölskyldutré, voða fínt. (Á hvolfi reyndar). Best að taka það skýrt fram að Kjartan er ekki með mig á háhesti, ég hlammaði mér upp á sófabakið til að fjölskyldutréð yrði rétt formað. Ég var búin að setja eina af mínum myndum í jólabréfið sem er síðasta færsla, en seinna fékk ég betri myndir frá hirðljósmyndara sem var á staðnum svo ég set þær hingað inn. Á efri myndinni eru allir tiltölulega settlegir og fínir (vantar bara neðri kjálkana á yngsta soninn)
en eftir mörg skot nokkurra myndavéla bætti ég tengdadætrunum við og þá voru minnstu manneskjurnar farnar að ókyrrast nokkuð svo ekki gafst færi til mikilla settlegheita.
Ég er afar stolt af þessu fólki.
Nú styttist í að þetta fólk hittist allt saman aftur ef veður og færð leyfa, þar sem til stendur að ferma skyrtuklædda manninn í fremstu röðinni eftir tvær vikur.
Kannski næst þá að uppfæra myndina?
Nú fer ég í það blogga hinumegin fyrst ég komst í gang.
Neðsta myndin er dásamleg :D
SvaraEyðaSammála Fríðu, æðisleg mynd :) Og þær allar mjög skemmtilegar. Já og til hamingju með Ödu Sóleyju, sniðugt að hafa svona nafnapúsl :)
SvaraEyðaSvo snidugt med svona púsl - og ættartrésmyndirnar eru ædislegar :)
SvaraEyðaOkay, nú las ég kommentid hennar Gudnýjar - ég er ekki bara ad herma eftir
Mér finnst í besta lagi að þið séuð sammála mér allar saman :) Takk.
SvaraEyða