laugardagur, 26. október 2013

106. Tíundi afkomandinn

Ég endaði síðasta blogg með því að segja stutt í stórviðburð. Á mánudag og þriðjudag átti ég frí í vinnunni og þóttist ætla að gera eitthvað af viti en eftir hádegið á mánudag hringdi Ingimundur og sagði að nú væru þau komin upp á fæðingardeild svo að ég pakkaði aftur í tösku og fór að þessu sinni í vesturátt. Alveg kjörið að nota frídagana til að vera með Ívani á meðan pabbi hans væri í þessu mikilvæga verkefni. Þetta gekk í rólegheitum svo að þau voru spurð hvort þau vildu ekki bara skreppa heim og hvíla sig en Marta aftók það. Sagði hinsvegar Ingimundi að drífa sig bara í skólann um kvöldið. Ívan var á opnu húsi í skólanum svo að ég sat hjá Mörtu á meðan. Það var indælt. Á fjórða tímanum um nóttina fékk ég svona sms: 03:33.
Ég hringdi umsvifalaust og spurði hvort hann ætti kannski litla stelpu? Ójú! Ekkert var þá farið að mæla eða vigta svo ég fékk eiginlega ekki aðra lýsingu en þá að hún væri fjólublá!! Þarafleiðandi hef ég ákveðið að kalla hana Fjólu þangað til búið er að gefa upp hennar rétta nafn. Nokkru síðar hringdi hann aftur og þá var komið í ljós að hún var 52 cm. og 15 merkur. Morguninn eftir bað Marta mig svo að koma því hún gat helst ekki beðið eftir að sýna mér dýrgripinn sinn (okkar). Ég féllst á það með semingi því ég vildi helst að hún hvíldi sig en hún fullyrti að hún þyrfti það ekkert meira í bili. Þegar ég kom svaf litla ljósið í fangi pabba síns með þetta grallarabros á andlitinu. 6 tíma gömul.
 Ég hef bara aldrei séð svona glaðlegt kornabarn fyrr.
 Pabbinn svaf líka.
 Seinna um daginn vorum við Ívan hjá þeim allan heimsóknartímann frá hálffimm til sex. Þarna er hún í fanginu á honum.
Langamma grandskoðar gripinn og var sammála mér um glaðlega andlitið.
Nú á ég 10 afkomendur. Þeir raðast þannig að ég á þrjá syni. Fyrstu barnabörnin fæddust í ágúst og október 1998 og þau síðustu í ágúst og október 2013. Fyrst var strákur, þá stelpa, svo tveir strákar og nú þrjár stelpur í röð. Hún Fjóla litla grallari er afkomandi mömmu númer 42.

2 ummæli: