föstudagur, 4. janúar 2013

84. Jólabréfið 2012

Ég hélt í sakleysi mínu að það væri bæði einfalt og fljótlegt að afrita og líma inn eitt stykki jólabréf, en ónei. Ég hafði sett inn í það nokkrar litlar myndir og það flækti heldur betur málin. Það endaði með því að ég vistaði bréfið upp á nýtt sem jólabréf á blogg, henti svo myndunum út og þá gekk fínt að afrita og líma. Nú set ég svo inn myndirnar á minn venjulega bloggarahátt og þarf ekkert að hugsa um hvað það kosti að prenta þær út. Þar af leiðandi held ég bara að ég hafi þær fleiri og skítt með það þó að einhverjar þeirra hafi birst hér fyrr.
Jólabréf 2012
Nú ætla ég að breyta frá hefðbundnu jólakorti og senda frá okkur yfirlit. Mér finnst gaman og fróðlegt að fá slík bréf og ætla að prófa að semja slíkt sjálf. Eitt af því fyrsta sem bar til tíðinda á árinu var að ég brá mér til Kópaskers til að leika í kvikmynd. Stuttmynd raunar, en það er svo miklu virðulegra að tala um kvikmynd. Þannig stóð á þessu ferðalagi að leikfélagi minn frá því að við lékum í Landsmótinu á Breiðumýri og í Þjóðleikhúsinu hafði samband við mig og bað mig að leika í útskriftarverkefninu hans frá Kvikmyndaskólanum. Þarna á Kópaskeri varð til myndin Engin traffík.
 Þetta var skemmtileg lífsreynsla og gaman að eiga nafnið sitt á svona bíóplakati. Í þessum fyrsta mánuði ársins gerðist svo það almerkilegasta þegar ég eignaðist fimmta ömmubarnið mitt. Fljótlega brá ég mér suður til hennar og við brölluðum sitthvað saman. Má þar líklega helst nefna að ég kenndi henni að dansa Yenka og hún verður áreiðanlega góð í því með tímanum þó að hún hafi steinsofnað í miðri kennslustund.
Í febrúar fór allt á fullt í leikhúsinu þar sem við settum upp Í gegn um tíðina og því fylgdi afar mikil búningavinna. Við notuðum um það bil 328 flíkur og 67 skópör. Ég lék Guðfríði, konu Gísla í gröf og þetta var bráðskemmtilegt og var gerður góður rómur að.
Í mars var minnsta ömmuljósið skírt og fékk nafnið Elín Rut. Já takk, ég á tvær ömmustelpur og þær heita báðar Elín! Ég segi að þetta sé til marks um það ég sé líklega ekki albölvuð við tengdadæturnar, svona að minnsta kosti eitthvað fram yfir skírn. Hér er ég með hópinn minn; Ívan Veigar Ingimundar, Lindu Elínu og Jóhann Smára Kjartansbörn og Elínu Rut og Jakob Ágúst Róbertsbörn.
Í apríl fermdist  fyrsta ömmubarnið, hann Jakob Ágúst í Glerárkirkju á Akureyri
og í júní  fermdist Linda Elín. Hún valdi að fermast hér að Grenjaðarstað þar sem hún hefði verið skírð hér heima í stofu. Þetta gladdi Agnar alveg sérlega mikið þar sem þá þurfti hann ekki að leggja land undir fót.
Seint í apríl fékk Ingimundur lánaðan bílinn minn og það fór ekki vel. Hann slapp þó furðu vel sjálfur og Grettir (hundur Mörtu) var að því er virtist alveg í lagi. Þetta hafði þau leiðindi í för með sér að ég varð að fara á stúfana og finna mér annan vetrar og hestakerrubíl og eftir nokkra leit keypti ég gamlan galloper. Agnar taldi fráleitt að hægt væri að muna svoleiðis nafn og ætlar að kalla hann Lindýhopp. Við erum búin að selja rauða hræið til niðurrifs og fengu færri en vildu. Helsti  vandinn að menn voru ekkert áfjáðir í að borga mikið fyrir hann en þetta er víst dýrindi fyrir fjallakalla.
Í maí var sauðburður að mestu með hefðbundnum hætti. Marta kærasta Ingimundar er hér að sinna honum Matta. Hún styttir honum stundir með því að lesa fyrir hann íslenska mannfræði á pólsku inni við ofninn í eldhúsinu. Allt gekk þetta bærilega.
Í júlí fór ég vestur á Ísafjörð að jarðarför föðurbróður. Gaman var að fá tækifæri til að rölta þar um gamlar slóðir svolitla stund og rifja upp árin sem ég bjó þar. Þaðan lá leiðin að Hvanneyri til að keppa í ULL Í FAT. Þar kepptu að þessu sinni þrjú tveggjamanna lið og verkefnið var að spinna og prjóna tvíþumla vettling.
Skömmu síðar var svo haldið stórt og gott ættarmót í Borgarfirði þar sem ég var dálítið í umsjón og umstangi. Þarna komu saman afkomendur Holtakotasystra en mamma er ein þeirra.
Í ágúst gerðist fátt umtalsvert en í september gerðist fleira en fólk kærði sig um. Skömmu áður en göngur voru fyrirhugaðar brast á veður sem fór afar illa með sauðfé og kostaði það mikla vinnu hjá mjög mörgu fólki og töluvert tjón varð á búfénaði, girðingum og gróðri. Hérna er mynd af safninu sem tókst að finna í fyrstu lotunni og reka til réttar. Þar hjálpuðu til auk annarra, Fríða, Kjartan og Elsa.
Við fórum í réttir í frekar blautu veðri og höfðum okkur til halds og trausts 26 manneskjur á öllum aldri. Elín Rut var yngst og Agnar elstur. Af afkomendum okkar vantaði bara Magnús, Sölva og Lindulín. Allir voru duglegir og fengu sér kakó og kleinur og þrátt fyrir erfiðan aðdraganda varð þetta ágætur dagur.
 Nokkru síðar fóru svo Ingimundur og Fríða í leitir í Þeistareykjalandi og stóðu sig vel. Þegar upp var staðið vantaði okkur ellefu kindur auk þess sem þrjú lömb voru ekki tæk til slátrunar vegna hrakninganna. Þetta telst víst ekki mikið og fellur að mestu leyti innan sjálfsábyrgðar þannig að ekki er búist við miklum bótum í þetta bú. Þó er það ekki fullfrágengið. Hér heima varð líka annars konar tjón, það er að segja í skóginum okkar. Þar brotnaði nokkuð af alaskavíðinum og restin rótslitnaði í stórum stíl. Aðrar plöntur skemmdust minna. Ingimundur og Róbert Stefán eru búnir að taka niður mestallt limgerðið og er talsverður sjónarsviptir að því en það var orðið þónokkurra mannhæða hátt.
Í haust hefur snjóað mun meira en mér finnst hentugt og núna um miðjan desember er enn allt hvítt og harðfrosið.
Í nóvember tókst mér þó að skjótast á milli élja til Egilsstaða til að vera í tveggja ára afmæli. Alveg nauðsynlegt að hitta af og til unga fólkið og leyfa því ekki að gleyma ömmu og afa. Afi komst að vísu ekki með í þetta sinn en ég dvaldi þarna í góðu yfirlæti nokkra daga.
Í sveitinni eru mörg handtökin sem vinna þarf og vel þegið að fá vinnumenn stundum um helgar, ekki síst þegar bóndinn er farinn að eldast. Mikið hefur munað um Ingimund á árinu og ekki er verra þegar Jakob og Ívan koma með honum.
Þetta er meðal þess helsta sem gerðist á árinu og vonandi verða bara engin stórtíðindi nú í desember. Við sendum héðan hlýjar óskir um gleðileg jól og notalega framtíð.

Svo mörg voru þau orð, þetta er semsagt það sem stóð í jólabréfinu. Það heyrir til algerra undantekninga að ég setji svona margar myndir í eina færslu en mér fannst ómögulegt að vera að slíta í sundur jólabréfið/annálinn.
Því má svo bæta við að í árslok gengu loks í gegn kaup okkar á jörðinni af ríkissjóði og er það góð tilfinning.
Að lokum bestu þakkir fyrir samskiptin á nýliðnu ári og óskir um gott líf á nýbyrjuðu.

3 ummæli:

  1. Getur stolt kvatt þetta heljarinnar ár sýnist mér. Til hamingju með nýja árið.

    SvaraEyða
  2. Verð að láta það fylgja með að orðið sem ég fékk upp til staðfestingar á kommentinu hér fyrir ofan var "ormsog" !

    SvaraEyða
  3. Var búin að heyra þetta, því Óttar las bréfið upphátt fyrir okkur aðfangadagskvöld. Svoo huggulegt með svona jólakort! :)

    SvaraEyða