miðvikudagur, 23. maí 2012

67. Árangur

Yngsti sonurinn skellti sér í tvö stór verkefni í upphafi árs. Það mikilvægasta hafði í för með sér að hann fór í fæðingarorlof og fyrst hann var í landi brá hann sér í um það bil hálft annað nám í stýrimannaskólanum. Hann hafði frjálsa mætingu og sat löngum stundum og lærði í tölvunni og naut við það dyggrar aðstoðar dóttur sinnar. Þau náðu heldur ekki svo slæmum árangri: Einkunnirnar voru svona í vor: 9 tíur, 2 níur og 1 átta. Meðaleinkunn 9,7
Ekki slæmt.
Nú er hann hins vegar kominn til Caracas og verður á sjó á þeim slóðum næstu mánuði. Við litla nafna bröllum áreiðanlega margt skemmtilegt á meðan.

66. Sástu Gretti?

Þessi hundur á að vera hér í vist en í honum er eitthvert ekkisens flækingsgen. Hann brá sér að heiman í gærkvöldi og fréttist af honum hér sunnan við okkur en hundahaldarinn hafði ekki tök á að bregðast við umsvifalaust sem kom sér illa því leit hefur ekki borið árangur. Þið lesarar sem til dæmis eruð staddir í Reykjadal megið gjarna koma til mín skilaboðum ef hann ber fyrir augu ykkar. Hann er mjög ljúfur í skapi og hálfgerð raggeit þannig að engum ætti að stafa ógn af honum þó að stór sé.
Hann er líklega núna með svörtu ólina sína.

fimmtudagur, 17. maí 2012

65. Handverkur?

Sauðburður tekur stundum á. Til dæmis er öll burðarhjálp búsins komin í/á mínar hendur með svona afleiðingum.
Stundum þarf að fara talsvert langt inn í þröngt rými til að snúa lambi, sækja fót eða hagræða á annan hátt. Þá getur þurft að beita hendinni á ýmsa ómögulega vegu og þrýstist þá stundum þétt að beinum móðurinnar. Ég veit sjaldnast nákvæmlega skil á svona marblettum en þannig verða þeir til. Þetta hefur hingað til tekist prýðilega í vor og líka hafa fósturmæður tekið aðskotalömbum fagnandi og ekkert verið að gera sér rellu yfir því að sum þeirra virðist hafa fæðst með eyrnalokk. Það skýrist af því að stundum er búið að merkja og marka lambið áður en nýja mamman tekur við. Eins gott að hafa góðar einlembur til að taka við þegar hér eru komnar tvær fjórlembdar og fimm þrílembdar af þessum 49 sem bornar eru. Ærnar eru bara hannaðar með tvo spena og þó að þær ráði sumar vel við að næra þrjú lömb er betra að jafna þetta svolítið.
Þó að lítið hafi komið hér inn undanfarið er ekki eins og ekkert gerist. Leiksýningum lokið og margir hafa tjáð hrifningu sína af verkinu, minnsta ömmuljósið flutti til Akureyrar í gær, ég keypti mér bíl og vorinu lauk með stæl.
Þetta blasir við út um gluggann núna, nýi gamli Galloperinn, gamli ónýti Hiluxinn, bilaði bíllinn hennar Mörtu, hestakerran sen kom aðeins við sögu í sambandi við búferlaflutninga í gær og svo auðvitað fjárhúsið sem tekur mestan tíma manns núna bæði daga og nætur. Ónýta dráttarvélin kemur málinu ekkert við.
Þarna blasa líka við afgangarnir af allt of stórum sköflum sem okkur áskotnuðust á sunnudag og mánudag. Veðrið er mikið að lagast og í morgun var bjart og fínt um tíuleitið þegar ég drattaðist fram úr( fór að sofa klukkan 5:30) og ákvað í bjartsýniskasti að rífa allt af rúminu og ná að setja hreint og ilmandi á aftur fyrir nóttina. Nú er vélin að verða búin að þvo og kominn bleytuhraglandi á norðurgluggana. Ætti ég kannski að láta eins og ég taki ekki eftir því og hengja samt út?
Jájá, segiði svo að ég bloggi aldrei!

laugardagur, 5. maí 2012

64. Rop í skógi

Hann getur verið með ýmsu móti bústofninn.
Þó að þær séu með vængi er ekkert endilega verið að nota þá að óþörfu, þær röltu bara upp heimreiðina og þegar kom að gerðinu fóru sumar óvart inn um hliðið og áttu í basli með að komast út :)

föstudagur, 4. maí 2012

63. Lömb hér og lömb þar

Allt á fullu í sauðburði, komin 50 lömb. Búið að ganga bæði vel og illa.
 Hér er Marta að lesa um íslenska mannfræði á pólsku fyrir Matta. Matti er gott dæmi um að gangi mjög illa og svo mjög vel. Það gekk afar illa að ná honum úr mömmu sinni og við vorum um tíma þrjú að toga. Mamman dó síðan og hann var svona tæpast lifandi allnokkra stund en ákvað svo að prófa. Við fórum með hann inn í eldhús og hann hjarnaði þar við með aðstoð hárþurrku og pela. Þarna er hann farinn að brölta á fótum.
Næsta ær, hún Kræða, var svo sem betur fór einlembd og tók fósturlambinu afar vel. Hér horfir hann á hana með aðdáun og virðingu þegar hún er að segja mér að vera ekkert abbast upp á hennar fínu lömb. Nú býr Matti alsæll með mömmu sinni og systur og rámar ekkert í að einhvern tíma hafi lífið verið öðruvísi.
Nú þarf ég að herða mig í að flá tvö lömb. Það er alltaf jafn ömurlega leiðinlegt en sútað smálambaskinn er mikið dýrindi. Já lífið er ekkert einfalt.