sunnudagur, 29. janúar 2012

43. Ímyndir.

Ef þið viljið að mér líki sæmilega við ykkur, ekki þá tala um lítil börn (lesist: barnabörnin mín) sem prinsa eða prinsessur. Sem betur fer erum við sauðsvartur almúgi og ég held hreint ekki að kóngafólk sé öfundsvert. Mér hefur alltaf fundist prinsa og prinsessutalið tilgerðarlegt og hjákátlegt. Mér er hins vegar tamt að tala um þau sem engla og ljós ef ekki hvort tveggja í senn og sjálfsagt má deila um hversu raunhæft það er líka :) Mér datt í hug að nefna þetta þegar ég var að lesa þessa færslu hér hjá henni Eddu vinkonu minni þar sem hún fjallar um tengt málefni. Lítum bara á börnin okkar sem venjulegt fólk með mismunandi áhugamál og eiginleika og hjálpum þeim til að gera það besta úr því sem þau búa yfir. 
Nú sýnist mér við hæfi að hafa amen eftir efninu og setja hér mynd af litla englaljósinu mínu :)
Og aðra sem mér barst rétt í þessu, þetta eru allar ömmustelpurnar mínar:
Prinsessur? Hjálpi mér nei, sú eldri hefur yfirleitt kunnað best við sig sitjandi á rassinum í fjárhúsinu masandi við kindur eða hænur. Margfalt hollara og skemmtilegra en að pjattast um í blúndukjól með kórónu á hausnum.

föstudagur, 27. janúar 2012

42. Hvert örstutt spor

Angalitla stúlkan mín steig skrefið inn í stóra heiminn í gær.
 Og fann fljótlega stað í fangi stóra bróður.
Hér eru þau, elsta og yngsta ömmubarnið mitt.
Hann kveðst ríkur núna; tvær systur, tveir bræður, tveir pabbar, tvær mömmur og hellingur af öfum, ömmum og langömmum.
Skrifar rígmontin amma.

fimmtudagur, 26. janúar 2012

41. Stelpuskott

Hæhó jibbíjey og svo framvegis, gaman gaman. Núna áðan fjölgaði kvenkyns afkomendum mínum um 100 prósent!!! Nú eru þær orðnar tvær ömmustelpurnar mínar. Því miður hef ég ekki tiltæka mynd en mér þykir afar sennilegt að úr því verði hægt að bæta fyrr en síðar.

laugardagur, 21. janúar 2012

40. Bollur

Það var ekki bara kæfan sem var búin. Það er nauðsynlegt að eiga alltaf eitthvað af skyndiréttum. Til dæmis bollum sem hægt er að hella í pott og sjóða fyrivaralaust.
 Ég átti stóra plötu af hakki í frosti. Hér er hún komin í bala ásamt nokkrum eggjum og mjöli úr ýmsum pokum sem ég fann í skápnum og slatta af kryddi.
 
Ég spurði Mörtu kvöldið áður hvort hún væri ekki til í að gera með mér kjötbollur og hún er svo jákvæð að hún játaði alveg án þess að hafa hugmynd um hvað hún væri að fara út í. Við stóðum tímunum saman (fannst mér að minnsta kosti) og mótuðum og steiktum.
 Það veitti ekkert af að kynda í tveimur pottum. Og jájá, ég veit að eldavélin er ekki hrein þarna en ég get svarið að hún varð það daginn eftir. Ef einhver er að velta fyrir sér hvað eggjaskurnin er að gera þarna þá er það þannig að ég vil ekki gefa hænunum hráa eggjaskurn því það eykur líkur á að þær fari sjálfar að brjóta og éta eggin sín. Ég vil halda því fyrir mannfólkið þannig að ég baka skurnið á eldavélinni og myl svo handa þeim. Þannig fá þær kalkið sitt til baka að hluta.
Nú er stór sekkur af kjötbollum í frystinum.

þriðjudagur, 17. janúar 2012

39. Haustverkin.

Bærinn kæfulaus orðinn fyrir löngu svo að ekki mátti við svo búið standa.
 Hreinsaði fjall af fullorðinsslögum úr heimaslátruninni, tók reyndar slatta af algerlega fitulausum pörtum í hakk, en stærsti hlutinn fór í pott. (Smávegis í hundamatarpott.) Varð að sjóða í tvennu lagi, fjallið var svo hávaxið.
 Fleytti ofan af langmest af fitunni, er löngu búin að átta mig á að kæfan þarf ekkert nauðsynlega að vera spikfeit. Svo grófhakkaði ég einhver kíló af lauk og brúnaði slatta í senn á pönnu upp úr floti frá kjötpottinum
 Næst lá fyrir að hreinsa himnur og fáein bein úr soðna kjötinu, hakka og hræra og krydda og sjóða. Kryddunin fer í stórum dráttum þannig fram að ég tek duglega til í kryddskápnum.
Hræra svo enn betur í hrærivél og pakka í allar smádollur sem finnast, restin fer í selló.
Hér er svo afraksturinn, full skúffa í frystiskápnum. Nú kætast barnabörnin.

fimmtudagur, 12. janúar 2012

38. Ég fékk mér hjól og fór að hjóla (syngist)

Þetta er búið að grafa um sig hjá okkur hjónum um tíma en nú létum við loks verða af því.
Hef ekki hugmynd um hvernig er best að nýta gripinn, verð bara að þreifa mig áfram. Geri ráð fyrir að maður nenni þessu helst á meðan horft er á sjónvarp en eftir 15 mínútna hjóltúr áðan ákvað ég að fyrsta markmið þyrfti að vera að venjast hnakknum í rólegheitum. Það er bara svipað og með hina hestana, byrjum ekki þjálfunina með hringferð um landið.

mánudagur, 9. janúar 2012

37. Meira af bókahillum.

Ætli ég haldi ekki aðeins áfram með bókahillublogg frá færslu 33.
 Fyrst er það barnabókadeildin. Ég held að þarna séu örugglega allar þær bækur sem ég eignaðist í æsku auk margra sem ég hef bætt við síðan. Sumar eru merktar sonum mínum en þó held ég að þeir hafi nú tekið flestar sínar séreignir. Bók er ekki sérlega góð barnabók nema allur aldur geti notið þeirra. Það á ekkert að vera að bera á borð fyrir börn lélegt rugl. Mér fannst eitthvað verulega skemmtilegt að sjá bækurnar í gluggakistunni svo að ég mátti til að mynda.
 Í þessa gluggakistu passaði föðurarfurinn nánast akkúrat. Þar er sitt af hverju og ég held þeim bókum sér eitthvað áfram.
Ég hef aldrei átt sérstakt húsgagn ætlað undir geisladiska enda kannski ekki mikil notkun á slíkum á mínum bæ miðað við marga aðra. Samt var nú löngu kominn tími á slíkt og það beið bara þessarar málningar og endurskipulagningar.
Hér er ég loks búin að opna flata pakkann sem var niðri í geymslu og farin að skrúfa saman.
Æi sjitturinn, þarna varð ég að saga ögn af nýmálaða dyraumbúnaðinum efst :(  En svo passaði allt fínt fínt.

Hér er svo allt komið á sinn stað við nýmálaðan vegginn, yngri deildin vinstra megin, pabbi hægra megin. Ég á eftir að lesa bækurnar sem liggja þar í miðhillunni, ég tók þetta skipulega og setti mér að lesa allt nema kannski ekki lyfjabókina, guðsorðið og orðabókina orði til orðs. Verð þó að viðurkenna að ég gafst upp á ævisögu Jóns Þorlákssonar þegar komið var dálítið aftur í pólitíkina, allt í lagi með uppvöxt og skóla, harkaði af mér með verkfræðingsárin en gugnaði eftir það. Gafst líka upp í seinna bindinu af Hannesi Hafstein, hef ekki getað fellt mig við dýrkunina á þeim manni þó að honum hafi vissulega verið ýmislegt til lista lagt. Þarna eru ýmis rit sem ekki eru alveg nýútgefin, nokkur yfir aldargömul. 

föstudagur, 6. janúar 2012

36. Jólaboð.

Við héldum jólaboð eins og stundum áður. Ég kveikti víst ekkert á myndavélinni þann daginn en ég rændi þessum myndum af bloggi sem er læst þannig að ég get ekki sent ykkur þangað sjálf. Rétthafi þess bloggs hefur líka sagt að maður megi stela myndum af sínu fólki :)
Þegar svolítið hafði fækkað var farið að spila púkk.
 Agnar hefur yfirsýn yfir mig og hálfan Kjartan.
 Mamma og Ingimundur eru afar spekingsleg.
 Þarna heldur Ívan þétt um systur sína og nafna mín nærist á laufabrauði en hún var sérlegur aðstoðarmaður minn þannig að það voru 4 ættliðir að spila.
Kjartan horfir á mig afar gagnrýnu augnaráði en ég virðist ekkert láta það á mig fá.
Eins og sést er nóg til af gullkrónum á þessu heimili þannig að hægt væri að spila púkk á mörgum borðum.
Á meðan sinnir Jóhann Smári listsköpun og er greinilega búinn að slefa á öxl móður sinnar. Hann er orðinn óþarflega vandlátur á fólk þannig að hann er ekki nema rétt farinn að samþykkja mig yfirleitt þegar við skiljumst á ný. Afleitt.

miðvikudagur, 4. janúar 2012

35. Konfekt.

Égerði konfekt til jólagjafa. Svona eins og mamma gerir oft. Úr kartöflum, flórsykri og bragðefni. Hjúpa það svo með súkkulaði. Hjúpa í leiðinni sveskjur og döðlur. Namm.

mánudagur, 2. janúar 2012

34. Útiljós.

Útiljós geta verið af ýmsu tagi. Snemma í desember var ég alvarlega að velta fyrir mér hvort ég nennti nokkuð að vera að vesenast með útiljósaskreytingar fyrir jólin. Húsbóndinn varð hinsvegar svo sorgmæddur við tilhugsunina og svo þegar ljóst varð að við yrðum ekki tvö að rolast hér, heldur sjö, þá tók ég á mig rögg. (þyrfti að skoða við tækifæri hver hann er þessi Röggur sem ég er þá að dröslast með?? Kannski skyldur Röggvarfeldinum sem Þorgeir nágranni minn á Ljósavatni yljaði sér undir um árið á meðan hann hugsaði)
 Ég sótti stjörnuna út í fjóshlöðu. Áður en hún var tekin ofan síðastliðin vetur slitnaði rafmagnssnúran frá vegna snjóþyngsla og ég vissi ekkert hvort einhverjir kaflar í slöngunni væru orðnir ónýtir. Þessa stjörnu gerðum við Kjartan fyrir rúmum áratug og hún á sinn fasta stað á vesturveggnum. Þegar ég hafði komið henni fyrir á borðstofuborðinu, sem er eini staðurinn sem hægt er að athafna sig með hana á, og tyllt rafmagnssnúrunni á sinn stað kviknaði ljós á næstum allri slöngunni, bara dauður einn metri. Nú jæja, það gat verra verið, ég losaði hana þá alla af, skar dauða partinn burt og setti saman á ný og festi svo allt á sinn stað, fór bara fáeinum sentimetrum styttra í allar beygjur og það kom prýðilega út.
 Eftir að ég fékk nýju gluggana hentar ekki lengur að setja græna jólatréð á vegginn framan við útidyrnar þar sem ég tími ekki að bora í nýja gluggakarminn. Þá velti ég fyrir mér möguleikunum. Mér dauðleiðast beinar línur og strik meðfram þakskeggjum, finnst það einhvern vegin of hugmyndasnautt fyrir minn smekk. En bárur þá? Í kaupstaðarferðinni sem ég nefni HÉR keypti ég rúma tuttugu metra af rauðri slöngu og við Ingimundur komum henni upp. Ég tengdi rafmagnssnúruna á, bræddi herpihólkinn utan um og klippti svo tengilinn af.
 Ingimundur fór út og upp í stiga og boraði gat efst á eldhúsgluggapóstinn. Þar þræddum við snúruna inn og ég setti tengil á og við settum þetta í fjöltengi sem er falið á bak við jólagluggakappann. Svo var næst að búa til bárur. Ég get frætt ykkur á því að næst gerum við þetta helst þegar hiti er yfir frostmarki því að þá er slangan þjálli. Ingimundur prílaði allnokkrar ferðir upp og niður stigann með rafmagnskapalfestingar og hamar og þetta er alveg viðunandi barasta.
Ég fór út í kvöld til að mynda og þetta er svona um það bil það sem ég sá. Að vísu prófaði ég alls konar stillingar á flassi og það var ýmist of eða van en þessi var skárst.
Þessi sýnir litina þó betur.
 Þetta er vesturveggurinn, bárurnar eru líka á norðurveggnum. Hinir veggirnir blasa ekki við almenningi að ráði svo við létum þetta duga núna.